Vestmannaeyjavöllur númer 34 yfir bestu golfvelli á Norðurlöndum samkvæmt Golf Digest í Svíþjóð

Í 7. tbl. (2016) Golf Digest í Svíþjóð eru 100 bestu golfvellir Norðurlandanna tíundaðir. Matið var unnið af golfvallahönnuðum, PGA golfkennurum, PGA kylfingum, blaðamönnum og fleiri sérfræðingum í golfíþróttinni. Vestmannaeyjavöllur lenti í 34. sæti á listanum sem er frábær kynning fyrir okkar fallega golfvöll. Fimm íslenskir golfvellir komust inn á listann og var Vestmannaeyjavöllur annar á eftir Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði sem lenti í 15. sæti. Þetta eru frábærar fréttir fyrir okkur en kemur kannski ekki mikið á óvart þar sem ótrúlega gott orð fer af Vestmannaeyjavelli meðal gesta sem koma til Eyja í golf.