top of page

1. hola

Blátindur

Fyrsta hola Golfklúbbs Vestmannaeyja kallast Blátindur. Herjólfsdalur blasir við teighögginu en leiðin liggur í átt að honum. Holan er 388 metrar af hvítum, 367 metrar af gulum, 342 metrar af bláum og 310 metrar af rauðum teigum. Brautin er þráðbein en flötin bíður upp á miskrefjandi holustaðsetningar. Betra er að vera of stuttur frekar en langur hér, par er gott skor.

1. hola.png

2. hola

Fell

2. holan er krefjandi par 3 hola sem er umkringd glompum. Hún mælist 124 metrar af öllum teigum. Flötin er lítil og er mikið landslag í henni. Flestir ganga sáttir frá henni með par á skorkortinu. Nafn brautarinnar, Fell er þannig til komið að framundan eru eldfjöllin tvö, sem hvað mest hafa komið við sögu í myndun Heimaeyjar. Helgafell sem gaus fyrir um 5000 árum og Eldfell árið 1973.

2. hola.png

3. hola

Hásteinn

3. holan er par 4 hola sem liggur í hundslöpp til hægri. Hún mælist 311 metrar af hvítum, 291 metri af gulum og 257 metrar af bláum og rauðum teigum. Högglengstu kylfingarnir komast nálægt gríninu hér en 4 glompur liggja í kringum það. Stutt hola sem gefur góðan möguleika á fugli. Lítill hóll á miðri brautinni, rétt aftan við 100 m merkið, heitir Hermann. Hann er nefndur eftir Hermanni Magnússyni á Símstöðinni en teighöggið hans endaði mjög oft á þessum stað.​

3. hola.png

4. hola

Langa

4. holan er lengsta hola vallarins, og af mörgum talin sú fallegasta. Teigurinn liggur við enda Herjólfsdals en flötin í honum miðjum. Holan mælist 515 metrar af hvítum, 504 metrar af gulum og 436 metrar af bláum og rauðum teigum. Brautin er nokkuð bein en mikið landslag er í henni. Fáir komast að flötinni í 2 höggum en auðvelt er að leggja upp fyrir framan flötina. Mikið landslag er í flötinni en ef holustaðsetningin er góð er möguleiki á góðu skori. Bergið á  hægri  hönd við teiginn heitir Fiskhellar og dregur nafn sitt af því að þar var fiskur áður þurkaður í hlöðnum byrgjum og standa sum enn. Í Tyrkjaráninu faldi fólk sig í þeim byrgjum

4. hola.png

5. hola

Moldi

5. holan er frekar stutt en mjög krefjandi par 4 hola. Hún mælist 319 metrar af hvítum, 282 metrar af gulum og bláum og 203 metrar af rauðum teigum. Teighöggið er niður í móti en innáhöggið upp í móti. 4 glompur liggja við flötina en mikið landslag er í henni. Þessi hola getur bæði gefið og tekið. Þetta er nýjasta brautin á gamla níu holu vellinum. Henni  var einfaldlega  „ troðið “  inn á milli 4. og  6. brautar til að sleppa við að spila í inndalnum.  Sú er ástæða þess hve þröngt er milli þessara brauta.

5. hola.png

6. hola

Herjólfsbær

Næstu þrjár flatir, nr  6. 7 og 8, eru hinar sömu og voru á gamla vellinum árið 1938, reyndar nokkru stærri en upphaflegu flatirnar voru. Þær eru því elstu golfholur á landinu. 6. holan er par 4 braut og liggur meðfram Dalveginum. Vallarmörk eru hægra megin við brautina, alla leið að flöt. 6. holan mælist 392 metrar af hvítum, 333 metrar af gulum og 291 metri af rauðum og hvítum teigum. Brautin er nokkuð bein en mikið landslag er bæði í kringum flötina og í flötinni sjálfri. Flötin hallar mjög frá vinstri til hægri og þarf því að vanda púttin mjög.

6. hola.png

7. hola

Langisjór

7. holan er af mörgum talin ein sú erfiðasta á vellinum. Mjög löng par 3 hola þar sem flötin er lítil. 7. holan er 198 metrar af hvítum teigum, 175 metrar af gulum teigum og 169 metrar af bláum og rauðum teigum. Teighöggið er mjög krefjandi þar sem öll högg utan flatar eru erfið. Best er að vera stuttur á flöt en annars bíður þín erfitt verkefni. Flötin er hinsvegar ekki mjög krefjandi og getur bjargað skorinu. Lautin við brekkuna á hægri hönd, vestan við veginn, heitir Púllalaut. Teighöggið af 8.teig hjá Páli Jónssyni (Púlla), sem var einn af stofnendum klúbbsins, endaði mjög oft þar.

7. hola.png

8. hola

Fjósaklettur

8. holan er skráð sem léttasta hola vallarins. Hún mælist 247 metrar af hvítum, 236 metrar af gulum og 209 metrar af bláum og rauðum teigum. Þrátt fyrir stutta vegalengd getur holan léttilega refsað. Vallarmörk eru uppi í fjallshlíðinni vinstra megin og flötin er umkringd glompum ásamt því að Fjósaklettur blasir við henni. Ef upphafshöggið er gott hér má vel búast við fugli, annars er voðinn vís. Fjósaklettur stendur rétt við flötina. Þar er talið að Herjólfur Bárðarson, fyrsti landnámsmaður í Vestmannaeyjum, hafi haft fjós sitt. Á Fjósakletti er ávallt brenna á þjóðhátíð.

8. hola.png

9. hola

Ormskot

9. holan er par 4 hola sem liggur í átt að golfskálanum. Hún mælist 354 metrar af hvítum, 346 metrar af gulum, 338 metrar af bláum og 331 metri af rauðum teigum. Brautin er þráðbein en tvær flennistórar glompur liggja hægra megin við hana. Oft getur verið gott að leika hægra megin við brautina þar sem það opnar flötina. Flötin sjálf er umkringd 3 stórum og krefjandi glompum sem geta refsað. Landslagið á flötinni er hinsvegar ekki mikið en getur þó leynt á sér. Hér er gott að fá par. Nafn brautarinnar, Ormskot, er sótt í Landnámu. Þar segir frá Ormi hinum auðuga, syni  Herjólfs landnámsmanns, er bjó á Ormsstöðum við Hamar niðri þar sem  er blásið allt.

9. hola.png

10. hola

Hellar

10. holan er skemmtileg byrjun á seinni 9 holunum. Hún mælist 300 metrar af hvítum og gulum og 259 metrar af bláum og rauðum. Vallarmörk liggja með veginum hægra megin við brautina og klettar og grjót eru hægra megin. Mikið landlag er í brautinni en hún liggur í hundslöpp til vinstri. Hér geta högglangir kylfingar reynt við grínið og mögulega fengið fugl. Hundraðmannahellir er framundan, hægra megin við brautina. Sagt er að þar hafi hundrað manns falið sig í Tyrkjaráninu en ræningjarnir fundið fólkið og hneppt í þrældóm.

10. hola.png

11. hola

Olnbogi

11. holan er ein sú erfiðasta á vellinum, sérstaklega fyrir höggstutta kylfinga. Hún mælist 416 metrar af hvítum, 364 metrar af gulum og 332 metrar af bláum og rauðum teigum sem gerir hana að lengstu par 4 holu vallarins. Tignarlegur hóll er á miðri brautinni sem flestir ættu þó að ná yfir. Brautin liggur í hundslöpp til vinstri og mikið upp í móti.  Flötin er frekar flöt en getur þó refsað ef ekki er farið gætilega. Landið undir brautinni var áður í eigu þriggja aðila, sem seldu klúbbnum landið.  Það var stúkað niður í þrjú hólf með grjótgörðum sem enn sést móta  fyrir vinstra megin við brautina.

11. hola.png

12. hola

Hæna

12. holan er krefjandi par 3 hola sem liggur með Hamarsveginum. Hún mælist 150 metrar af hvítum, 142 metrar af gulum og 110 metrar af bláum og rauðum teigum. Vallarmörk liggja við veginn hægra megin en flötin er umkringd glompum. Verulega djúp glompa er fyrir framan flötina hægra megin sem ber að varast. Hér er gott að fá par. Eyjarnar framundan heita einu nafni Smáeyjar;  Hæna, Hani og Hrauney. Fjórða eyjan, Grasleysa, er í hvarfi bak við Hrauney.  Gömul munnmæli herma að þær séu  neistar  úr Helgafellsgosi.

12. hola.png

13. hola

Borgir

13. holan er erfiðasta hola vallarins og ein sú erfiðasta á landinu. Hún mælist 355 metrar af hvítum og gulum teigum og 344 metrar af bláum og rauðum teigum. Vallarmörk eru vegurinn vinstra megin við brautina en við hann liggur íbúabyggð. Teighöggið er mjög krefjandi en allt það sem hittir ekki braut býður upp á mjög erfitt innáhögg. Flötin liggur mun ofar en brautin og liggur hún einnig frá henni. Hlaðnar glompur liggja svo í kringum hana. Ekki er þó mikið landslag í flötinni. Hér er par mjög gott skor. Vestasti hluti Dalfjalls, á hægri hönd, heitir Halldórsskora en er oftast kallaður Fíllinn, þar sem bergið er óneitanlega nokkuð líkt fíl sem stingur rana sínum ofan í sjóinn.

13. hola.png

14. hola

Ægisdyr

14. holan er skemmtileg par 3 hola þar sem náttúra Vestmannaeyjavallar nær að njóta sín í botn. Hún mælist 118 metrar af öllum teigum en teigurinn situr nokkrum metrum ofar en grínið. Klettar liggja alla leið að flötinni og í kringum hana. Þar eru einnig tvær glompur sem geta refsað. Flötin er svo nokkuð einföld og gefur góðan möguleika á fugli. Eyjarnar sem blasa við af teignum, heita einu nafni Suðureyjar.  Frá vinstri;  Suðurey,  Hellisey, Súlnasker,  Geldungur,  Geirfuglasker  (í hvarfi),  Brandur,  Ásley og legst úti er  Surtsey.

14. hola.png

15. hola

Hamar

15. holan er skemmtileg er mjög krefjandi par 4 hola. Hún mælist 260 metrar af hvítum og gulum teigum og 252 metrar af bláum og rauðum. Hér má alls ekki fara til vinstri í upphafshögginu en þá ertu kominn út í Atlantshafið. Högglangir kylfingar geta vel hitt flötina í upphafshögginu en til þess þarf nákvæmt högg. Tvær glompur liggja við flötina sem er lítil. Hún gefur þó góðan mögleika á einpútti þar sem lítið landslag er í henni. Hér er gott að fá par. Framundan á vinstri hönd, ofan við Halldórsskoru (Fíllinn) í Dalfjalli, er  Álfakirkjan.  Kirkjudyr kristinna mann snúa yfirleitt í vestur en dyr kirkna hjá álfum til austurs ein og hér.

15. hola.png

16. hola

Höfn

16. holan er einstök par 5 hola sem liggur með sjónum. Hún mælist 473 metrar af hvítum, 463 metrar af gulum, 442 metrar af bláum og 369 metrar af rauðum teigum. Upphafshöggið er slegið yfir Atlantshafið en vallarmörk eru báðum megin við brautina. Högglangir kylfingar geta reynt við flötinaí tveimur höggum en þá ber að varast tjörn sem liggur fyrir framan flötina. Einnig er hægt að leggja upp á braut fyrir framan tjörnina. Mikið landslag er í flötinni en hér er mjög gott að labba burt með par eða fugl á skorkortinu.

17. hola

Mormónapollur

17. holan er af flestum talin fallegasta par 3 hola landsins. Hún mælist 133 metrar af öllum teigum en teigurinn liggur við Kaplagjótu. Upphafshöggið er slegið yfir Atlantshafið þar sem þú verður að drífa inn á flöt, annars er voðinn vís. Tvær glompur liggja vinstra megin við flötina og tjörn á bakvið hana. 17. holan er einkennishola Vestmannaeyjavallar. Mormónapollur er sjávarlón í grjóturðinni á hægri hönd, vestur af Sendiboðanum, minnisvarða er mormónar frá Utah, afkomendur Vestmannaeyinga, reistu árið 2000. Í Mormónapolli voru Eyjamenn skírðir til mormónatrúar seit á 19. öld.

17 2_edited_edited.jpg

18. hola

Örn

18. holan er skemmtileg par 5 lokahola. Hún mælist 435 metrar af hvítum, 421 metri af gulum, 411 metrar af bláum og 403 metrar af rauðum teigum. Brautin er nokkuð bein og liggur að hægri hlið klúbbhússins. Tjörn liggur fyrir framan flötina en hún sést ekki frá brautinni. Flötin felur svo í sér gífurlegt landslag þar sem hún liggur öll niður í móti. Hún getur léttilega refsað en einnig gefið, hér fá margir fugl. Golfklúbbur Vestmannaeyja var stofnaður 1938 og er þriðji elsti golfklúbbur á landinu. Fyrstu árin var spilað á sex holu velli, síðan tóku við níu holur en átján holu völlur var tekin í notkun árið 1993.

18 3.png

Vallarvísir GV

Hér má nálgast vallarvísi Golfklúbbs Vestmannaeyja. Hann er einnig aðgengilegur í klúbbhúsinu.

Forgjafartafla

Hér má nálgast forgjafartöflu GV, hún er einnig aðgengileg í skálanum.

bottom of page